Mánudagur 24. nóvember Réttindabót, loftslagsmálin, sorgin, íslenskan og ungskáld Alma Ýr Ingólfsdóttir formaður ÖBÍ ræðir við Gunnar Smára um úttekt Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála á þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk og um gildi þess að samningur sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur verið lögleiddur. Hallgrímur Óskarsson framkvæmdastjóri Carbon Iceland gerir upp COP-ráðstefnuna. Minni áhersla er lögð á vistvænan samgöngumáta en margir hefðu kosið og sitthvað bendir til bakslags. Hallgrímur segir þó allt of snemmt að örvænta. Björn Þorláks ræðir við hann. Vigfús Bjarni Albertsson prestur og forstöðumaður sálgæslu- og fjölskylduþjónustu ræðir við Gunnar Smára um bók sína Sár græða sár, um sorgina og áföllin og hvernig við erum búin undir slíkt sem manneskjur og samfélag. Páll Valsson rithöfundur og bókmenntafræðingur hefur lengi haft áhyggjur af stöðu íslenskrar tungu. En aldrei sem nú. Efna þarf í raun til þjóðarátaks til að bjarga þeirri menningargersemi sem íslenskan er og bindur okkur saman að mati Páls. Aron Elí Arnarsson, 15 ára grunnskólanemi, sigraði nýverið í ljóðasamkeppni. Hann lýsir hugarheimi sínum og áherslum og les upp eigið verðlaunaljóð.